Neitar að hafa myrt sjúklinga

Indverskur skurðlæknir sem starfaði í Ástralíu neitar því að bera ábyrgð á dauða þriggja ástralskra sjúklinga er hann kom fyrir dóm í dag. Hann er ákærður fyrir manndráp og að hafa slasað sjúklinga alvarlega með óþörfum aðgerðum og röngum greiningum á veikindum.

Jayant Patel, 59 ára,  stýrði skurðstofu á ástralska sjúkrahúsinu Bundaberg Base á tímabilinu 2003 - 2005.

Patel var framseldur frá Bandaríkjunum í júlí 2008 vegna málsins.

Að sögn saksóknara létust sjúklingar eða voru limlestir eftir að hafa farið undir hnífinn hjá Patel sem gerði á þeim aðgerðir sem voru óþarfar. Til að mynda hafi hann skorið einn sjúkling upp sem hann greindi með krabbamein en í ljós kom að ekkert amaði að sjúklingnum.

Einn sjúklingur lést eftir að Patel skar hluta iðra hans í burtu án þess að hafa fyrir því að rannsaka hvað olli blæðingum í endaþarmi sjúklingsins, að sögn saksóknara.

Fyrrverandi sjúklingar læknisins fylgdust með réttarhöldunum í dag en að sögn talsmanns þeirra sem kærðu lækninn á sínum tíma fyrir afglöp í starfi þá hefur þetta verið fimm ára erfið barátta. Gert er ráð fyrir að réttarhöldin standi yfir í tíu vikur og að um 160 vitni verði leidd fyrir dómarann. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert