Óttast tafir á friðarviðræðum

Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraela segist óttast að friðarviðræður í Mið-austurlöndum geti tafist um allt að því ár nema Palestínumenn láti af kröfum sínum um frystingu á fyrirhuguðum landnemabyggðum Ísraela á Vesturbakkanum.

Netanyahu lét þessi orð falla á fundi með þingleiðtogum bandaríska þingsins í þriggja daga heimsókn sinni til Washington. Hann reynir nú að bæta samskipti þjóðanna eftir að þær tókust á vegna fyrirætlana Ísraela um að byggja 1.600 heimili fyrir Ísraela við austurhluta Jerúsalem. 

Netanyahu segir samband þjóðanna áfram gott og þakkaði Bandaríkjunum stöðugan stuðning og vináttu.

Palestínumenn bökkuðu út úr friðarviðræðum við Ísraela þegar þeir tilkynntu um landnemabyggðirnar fyrir tveimur vikum síðan.  Obama hefur síðan reynt að miðla málum og mun hitta Netanyahu á meðan á heimsókn hans til Washington stendur. Ekki er þó búist við formlegri yfirlýsingu af þeim fundi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert