Karen Ellemann, umhverfisráðherra Danmerkur, varar við eiturefnum sem notuð eru í kynlífsleikföng. Hún vill að Evrópusambandið herði reglur um efnisval í slíkan tækjabúnað, að sögn norsku fréttastofunnar ABC Nyheter.
Dönsk heilbrigðisyfirvöld létu árið 2006 rannsaka efnanotkun í kynlífsleikföngum með tilliti til heilbrigðis. Niðurstaðan var sú að í sumum kynlífsleikföngum var mikið af svonefndum ftalat-efnum sem notuð eru til að mýkja plast, en þau þykja óheilnæm og trufla hormónastarfsemi.
Ftalöt eru þannig talin hafa áhrif á gæði sæðis karla, valda vansköpun á kynfærum sveinbarna og flýta kynþroska stúlkna svo þær fara að fá brjóst við átta ára aldur.
Danska heilbrigðisstjórnin komst að þeirri niðurstöðu að hættan á slæmum áhrifum á heilsuna væri lítil við „eðlilega notkun“ kynlífsleikfanga. Nú vitnar Karen Elleman umhverfisráðherra í nýja könnun sem beinir sjónum að samlegðaráhrifum slíkra efna.
„Þess vegna munu umhverfisyfirvöld einnig hafa ftalöt í kynlífsleikföngum með í þeirri skýrslugerð sem verður grundvöllur tillögu Dana um nýjar ESB-reglur varðandi notkun ftalata í ýmsum framleiðsluvörum,“ sagði Ellemann.
Til öryggis hafa dönsk umhverfisyfirvöld nú sett leiðbeiningar á heimasíðu sína um notkun slíkra tækja. M.a. er vanfærum konum og þeim sem hafa börn á brjósti ráðið frá því að nota kynlífsleikföng. Þá er einnig ráðlagt að sveipa frygðarganda gúmmíverjum við notkun.