Kínverskur leikskólakennari var í dag dæmdur í þriggja ára fangelsi fyrir að stinga yfir sextíu börn með sprautunál í því skyni að aga þau. Um er að ræða konu á þrítugsaldri sem sagði sér til varnar, að börnin hefðu verið of mörg fyrir hana að ráða við. Börnin hlutu ekki varanlegan skaða af stungunum.
Konan starfaði á einkareknum leikskóla í héraðinu Yunnan í suðurhluta Kína. Hún játaði sök og þrátt fyrir að sálfræðingur segði hana haldna persónuleikaröskun taldi dómurinn hana sakhæfa. Konan krafðist þess að bótakröfu foreldranna yrði vísað frá og var fallist á það. Einnig var kæru á hendur yfirmönnum leikskólans vísað frá.
Börnin sem eru á aldrinum þriggja til fimm ára voru öll lyfjaprófuð í kjölfarið en reyndust hvorki sýkt af lifrabólgu né HIV.