Fídel Kastró, fyrrum leiðtogi Kúbu, segist ekkert hafa á móti Bandaríkjaforseta, Barack Obama, jafnvel þó hann segi stundum heimskulega hluti um Kúbu. Obama gagnrýndi yfirvöld á Kúbu harðlega í gærkvöldi og krafðist þess að allir pólitískir fangar í landinu yrðu látnir lausir.
Barack Obama er ofstækisfullur í trú sinni á heimsvaldastefnu kapítalismans, kerfi sem Bandaríkin hafa troðið inn á heiminn, segir Kastró í skilaboðum sem birt voru í öllum dagblöðum á Kúbu í dag.
Kastró segist ekkert hafa persónulega á móti Obama eða bandarísku þjóðinni og benti Obama á stöðu heilbrigðismála á Kúbu.
Kastró segir Obama vera vel gefinn og upplýstan og sagðist vonast til þess að þeir heimskulegu hlutir sem hann segði stundum um Kúbu myndu ekki hafa slæm áhrif á gáfur hans. Hann segist telja að styrkur Bandaríkjanna í efnahag, tækni og vísindum muni ekki lifa af þær hörmungar sem nú ógni jörðinni. Harðir jarðskjálftar sem riðu yfir Haítí og Chile fyrr á árinu séu sönnun á þeirri hættu sem hin svo kallaða siðmenning valdi okkur.
„Obama forseti ætti að leita í tölvunni sinni að viðeigandi upplýsingum og ræða þær við sína framúrskarandi vísindamenn og hann mun uppgötva að landið er langt frá því að vera fyrirmynd mannúðar líkt og það segist vera."