Páfi sakaður um yfirhylmingu

Benedikt páfi XVI.
Benedikt páfi XVI. AP

Spurningar hafa vaknað hvort Benedikt páfi hafi átt þátt í því að hylma yfir gjörðir kaþólsks prests, sem er sakaður um að hafa beitt börn kynferðislegri misnotkun.

Bandaríska dagblaðið New York Times segist hafa séð gögn sem bendi til þess að Benedikt páfi hafi ekkert aðhafst vegna bréfa, sem bárust honum á tíunda áratug síðustu aldar, vegna máls sem kom upp í Bandaríkjunum.

Prestur að nafni Lawrence Murphy, sem er frá Wisconsin, var sakaður um að hafa misnotað 200 heyrnarlausa drengi.

Fram kemur á fréttavef BBC að Páfagarður hafi sagt að bandarísk yfirvöld hafi rannsakað málið og látið það svo niður falla. Páfagarður segist ekki hafa vitað af þessum ásökunum fyrr en 20 árum eftir rannsókn málsins, en fyrstu ásakanir bárust á hendur Murphy um miðjan áttunda áratug síðustu aldar.

Benedikt, sem heitir réttu nafni Joseph Ratzinger, stýrði stofnun á vegum Páfagarð fyrir um 20 árum, löngu áður en hann varð páfi. Meðal verkefna stofnunarinnar var að bregðast við málum sem varða kynferðislega misnotkun á börnum.

Skv. upplýsingum New York Times aðhafðist páfi ekkert í tvígang vegna bréfa sem voru stíluð á hann persónulega, þar sem ásakanirnar á hendur prestinum voru bornar upp.

Undanfarna mánuði hefur kirkjan þurft að svara ásökunum um að hún hafi hylmt yfir gjörðum kaþólskra presta í Evrópu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert