Suður-kóresk herskip er að sökkva undan vesturströnd landsins, skammt frá Norður-Kóreu. Um 100 manns eru um borð í skipinu. Fréttir herma að mögulega hafi tundurskeyti hæft herskipið.
Skipið er að sökkva skammt frá Baengnyeong-eyju að sögn Yonhap fréttastofunnar. Björgunarsveitarmenn eru á leiðinni á vettvang en óttast er um skipverjana.
Þá segir að skipið hafi skotið á annað óþekk skip í norðri. Yfirvöld hafa ekki staðfest þessar fréttir að sögn breska ríkisútvarpsins.
Ríkisstjórn Suður-Kóreu heldur nú neyðarfund vegna málsins. Varnarmálaráðuneyti landsins hefur ekki staðfest hvort Norður-Kóreumenn tengist málinu.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem til átaka kemur á hafsvæðinu á milli Norður- og Suður-Kóreu.
Í nóvember sl. skaut suður-kóreskt herskip að norður-kóresku skipi, sem var komið inn á yfirráðasvæði Suður-Kóreu. Norður-kóreska skipið svaraði í sömu mynt.
Stjórnvöld í Norður-Kóreu halda því fram að skipið hafi ekki farið yfir hina umdeildu landhelgislínu á milli landanna við Kóreuskaga.