Brenndu sænska fánann

Fredrik Reinfeldt, forsætisráðherra Svíþjóðar, segir tjáningafrelsið heilagt.
Fredrik Reinfeldt, forsætisráðherra Svíþjóðar, segir tjáningafrelsið heilagt. mbl.is/Brynjar Gauti

Hundruð Malasa tóku í gær þátt í mótmælum, þar sem skorað var á sænsk stjórnvöld að grípa til aðgerða gegn þeim fjölmiðlum sem birtu myndir sænska listmannsins Lars Vilks, en myndirnar sýndu m.a. Múhameð spámann sem hund. Mótmælendurnir brenndu sænska fánann fyrir utan sendiráð Svía í Kuala Lumpur, höfuðborg Malasíu.

Í frétt á vef Dagens Nyhter (DN) kemur fram að auk þess að brenna sænska fánann, brenndu mótmælendurnir myndir af listamanninum. Hrópað var „Lengi lifi íslam“ og „Niður með Svíþjóð,“ en einstaka mótmælendur báru skilti með áletruninni „Lærið af 11. september“.

„Við krefjumst þess að sænsk stjórnvöld grípi til tafarlausra aðgerða gegn blöðunum og listamanninum. Það sem þeir gerðu spámanni okkar er óásættanlegt,“ hefur DN eftir Sabki Yusof, eins af skipuleggjendum mótmælanna.

Helena Sångeland, sænski sendiherrann í Kuala Lumpur, sagði í samtali við DN í gær mikilvægt að samræða eigi sér stað við múslima til að auka skilning beggja aðila á málstað hins. Hins vegar harmaði hún meðferð þá sem sænski fáninn fékk. Auk þess sagði Sångeland að tjáningarfrelsi væri skrifað í stjórnarskrá Svíþjóðar, og því komi ekki til greina að stjórnvöld grípi til aðgerða vegna birtinga myndanna.

Forsætisráðherra Svíþjóðar, Fredrik Reinfeldt, tekur í samtali við DN í dag undir orð sendiherrans. „Við munum halda áfram tilraunum okkar til að útskýra okkar sænska samfélag, þar sem táningafrelsi er stjórnarskrárvarið og ákvarðanir fjölmiðla um birtingar eru óháðar hinu pólitíska valdi.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert