Þúsundir stuðningsmanna nýrra grasrótarsamtaka í Bandaríkjunum, Tea Party, mættu á fund samtakanna í Nevada ríki í gærkvöldi til þess að hlýða á fyrrum varaforsetaefni Repúblikanaflokksins, Sarah Palin, tala. Tea Party eru ný grasrótarsamtök hægrimanna í Bandaríkjunum.
Tea Party hreyfingin varð til í kjölfar forsetakosninganna í nóvember 2008 þar sem John McCain, forsetaframbjóðandi repúblikana, og Palin, töpuðu afgerendi fyrir Barack Obama. Upphaflega var hæðst að hreyfingunni en hún hefur sótt í sig veðrið hægt og sígandi. Hreyfingin vill, að Repúblikanaflokkurinn færi sig meira til hægri.
Til þessa hefur flokkurinn verið hikandi við að taka tillit til hreyfingar, sem hefur sem fyrirmynd svonefnda Tea Party uppreisn í Boston árið 1773 þar sem fólk reis upp gegn sköttum breska nýlenduveldisins.
Palin hvatti fundargesti til þess að „reka" leiðtoga demókrata í öldungadeildinni, Harry Reid, og aðra demókrata sem studdu heilbrigðisfrumvarp Obama forseta, frá völdum í kosningum sem fram fara í nóvember.
Um sjö þúsund fundargestir urðu að standa fyrir utan salinn þar sem fundurinn fór fram vegna þrengsla. En fundurinn var haldinn í heimabæ Reid.