Segir Palestínumenn hindra frið

Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, á vikulegum ríkisstjórnarfundi í dag.
Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, á vikulegum ríkisstjórnarfundi í dag. Reuters

Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels sakar Palestínumenn um að hindra friðarviðleitni Bandaríkjamanna. Hann lét ummæli þess efnis falla eftir að Palestínumenn ítrekuðu þá afstöðu sína að taka ekki einu sinni upp óbeinar viðræður nema uppbygging landnemabyggða gyðinga verði stöðvuð.

„Við sjáum að Palestínumenn eru að harðna í afstöðu sinni. Þeir sýna engin merki hófsemi,“ sagði Nethanyahu á vikulegum ríkisstjórnarfundi.

Mahmud Abbas, forseti Palestínu, hefur hafnað öllum viðræðum við Ísraelsmenn nema þeir stöðvi uppbyggingu landnemabyggða á Vesturbakkanum, þar á meðal í austurhluta Jerúsalem þar sem einkum búa Arabar. Svæðið var hertekið árið 1967 og innlimað í Jerúsalem.

Leiðtogar Arabaríkja lýstu yfir stuðningi við stefnu Abbas í lok tveggja daga leiðtogafundar í Líbíu. Fundinn sóttu fulltrúar 14 þjóða af 22 aðildarþjóðum Arababandalagsins. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert