Vilja halda sjúklingum utan spítala

HO

Nýjasta tilraun Breta til að draga úr kostnaði hjá hinu opinbera heilbrigðiskerfi (NHS) hefur vakið mikla reiði hagsmunahópa sjúklinga. Tilraunin gengur út á að NHS greiðir starfsmönnum sjúkrabíla 38 pund (rúmar 7.000 ísl.kr.) fyrir hvern sjúkling sem þeir koma ekki með á neyðarmóttöku eftir að hringt hefur verið á neyðarlínuna.

Greint er frá þessari umdeildu tilraun í The Sunday Telegraph, sem einnig er birt á vef Telegraph. Í fréttinni segir að NHS hafi þurft að glíma við mikinn kostnað sökum þess að sjúklingar fara í auknum mæli á neyðarmóttöku sjúkrahúsa frekar en læknavaktir hjá heilsugæslustöðvum.

Stórt fyrirtæki sem gerir út sjúkrabíla fyrir hið opinbera heilbrigðiskerfi hefur skv. skýrslu sem Telegraph vitnar til lagt sig fram um að auka tekjur sínar með því að sinna sjúklingum utan spítala frekar en að koma þeim til lækna á neyðarmóttöku sjúkrahúsa.

Lést vegna nýs flokkunarkerfis

Einnig hafa verið gerðir kerfisbundnar tilraunir hjá NHS til að fækka komum á neyðarmóttökuna með því að sinna fleiri símtölum í neyðarlínuna í gengum síma. Hefur flokkunarkerfinu verið breytt, þannig að meira þarf til að sjúkrabíll er sendur af stað heldur en áður.

Hugmyndir voru um að innleiða nýtt flokkunarkerfi á landsvísu, en eftir að maður, sem talið er að hefði verið hægt að bjarga ef sjúkrabíll hefði samstundis verið sendur á staðinn, lést eftir hjartaáfall í síðustu viku, hafa stjórnvöld ákveðið að taka hugmyndina til endurskoðunar.

Fyrr í mánuðinum hættu sjúkrastofnanir í Berkshire, Buckinghamshire, Hampshire og Oxfordshire við hugmyndir um að verðlauna starfsmenn sjúkrabíla með innleggsnótum í verslunum fyrir að fara með sjúklinga til heimilislæknis í stað spítala.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka