Níu meðlimir kristins skæruliðahóps hafa nú verið ákærðir fyrir að ætla að myrða lögreglumenn og koma svo fyrir sprengjum við jarðarför fórnarlambsins, í tilraun til að koma af stað uppreisn gegn ríkisstjórn Bandaríkjanna.
Lögregla fékk níunda manninn til að koma úr felum með því að spila í hátölurum skilaboð frá fjölskyldu hans og vinum sem hvöttu hann til að gefa sig friðsamlega fram. Hann var svo handtekinn af þungvopnuðum lögreglumönnum. Faðir hans og sjö aðrir voru handteknir um helgina í Michigan, Indiana og Ohio, en að sögn FBI var ætlun hópsins að ráðast til atlögu í apríl og var því hraði settur á aðgerðir lögreglu gegn þeim. Hald hefur verið lagt á skotvopn en yfirvöld hafa ekki upplýst hvort sprengiefni hafi fundist.
Að sögn saksóknara hóf skæruliðahópurinn stífa herþjálfun í skóglendi Michigan árið 2008 og æfðu sig þá m.a. í skotfimi og að setja upp heimatilbúnar sprengjur. Meðlimir Hutaree hópsins kalla sig „hermenn guðs". Á heimasíðu þeirra vitna þeir í Biblíuna og lýsa yfir þeirri trú sinni að einn dag muni andkristur koma til jarðar og „Jesús vilji að við séum reiðubúin að verja okkur með hjálp sverðsins og halda lífi með notkun vopna".