Níu unglingar í Massachusetts í Bandaríkjunum hafa verið ákærðir fyrir að hafa lagt 15 ára stúlku í einelti í marga mánuði, en það leiddi til þess að stúlkan, Phoebe Prince, fyrirfór sér í janúar sl.
Að sögn saksóknarans Elizabeth D. Scheibel, fannst lík Prince hangandi í stigagangi við íbúð foreldra sinna í South Hadley 14. janúar sl. Scheibel segir að svo virðist sem að stúlkan hafi þurft að þola miklar þjáningar áður en hún framdi sjálfsvíg, en hún var bæði beitt líkamlegu og andlegu ofbeldi.
Saksóknarinn segir að Prince hafi verið áreitt fyrr um daginn er hún var að læra á bóksafni gagnfræðiskólans í South Hadley. Svo virðist sem að kennari og nokkrir samnemendur hafi orðið vitni að þessu, en enginn lét vita af þessu fyrr en eftir að stúlkan fannst látin.
Hún og foreldrar hennar voru nýflutt til landsins frá Írlandi, að því er kemur fram á fréttavef CNN.
Að sögn saksóknara stóð ofbeldið yfir í þrjá mánuði og gekk það út á að niðurlægja Prince og gera henni lífið leitt í skólanum. Daginn sem hún fyrirfór sér hafði einn piltur og tvær stúlkur beitt hana andlega og líkamlegu ofbeldi. Málið snerist um ástarsamband Prince við annan pilt, sem hafði lokið sex vikum áður.