Kaþólska kirkjan í Danmörku fékk í síðustu viku fjórar nýjar tilkynningar um kynferðislega misnotkun. Málin verða rannsökuð að sögn Berlingske Tidende. Öll málin varða kynferðislegt ofbeldi presta og samstarfsmanna þeirra gagnvart börnum í kirkjunni á 7. og 8. áratug síðustu aldar.
Niels Engelbrecht, sóknarprestur í Sankt Ansgars kirkju í Kaupmannahöfn og talsmaður kaþólsku kirkjunnar í málum varðandi kynferðislegt ofbeldi, segir að málin varði velsæmisbrot og eitthvað sem sé í ætt við samfarir.
Hann hefur verið í tölvupóstsambandi við fórnarlömbin sem öll voru á barnsaldri þegar brotin voru framin. Ofbeldið sem þau urðu fyrir hefur haft alvarlegar afleiðingar fyrir þau.
„Þetta var vont fyrir þau og það gerðust hlutir sem hafa haft eyðileggjandi áhrif á líf þeirra síðar meir. Þau segja sjálf að árásirnar sem þau urðu fyrir hafi t.d. skemmt getu þeirra til að lifa kynlífi,“ sagði Niels Engelbrecht.
Alvarlegasta málið varðar útlendan prest sem hafði mök við fórnarlamb sitt. Þessi prestur gegnir enn þjónustu í kaþólsku kirkjunni í öðru landi.