Svíar og Finnar gagnrýna kanadísk stjórnvöld

Rússneskt rannsóknarskip á norðurslóðum. Norðurskautið er sagt ríkt af auðlindum …
Rússneskt rannsóknarskip á norðurslóðum. Norðurskautið er sagt ríkt af auðlindum og nú deila menn um hver eigi nýtingarréttinn. Reuters

Stjórnvöld í Svíþjóð og Finnlandi gagnrýndu kanadísk stjórnvöld í dag fyrir að hafa ekki boðið fulltrúum ríkjanna og Íslands á fund þar sem rætt er um framtíð norðurskautsins. Danir og Norðmenn eiga fulltrúa á fundinum, en ekki Íslendingar, Finnar og Svíar.

Finnar og Svíar segja að fundurinn í Quebec gæti grafið undan störfum Norðurheimskautsráðsins.

Í gær gagnrýndi Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, kanadískt stjórnvöld fyrir að bjóða ekki öllum Norðurlandaríkjunum á fundinn sem og fulltrúum frumbyggja. Aðeins Bandaríkin, Rússland, Danmörk, Noregur og Kanada sitja fundinn.

„Okkur þykir miður að Kanada hafi aðeins ákveðið að bjóða fimm af átta þjóðum sem liggja við norðurskautið,“ segir talsmaður sænska utanríkisráðuneytisins.

Norðurskautið er sagt vera ríkt af náttúruauðlindum og hafa ríkin deilt um hver eigi réttinn að þessum auðlindum, m.a. er um að ræða olíu og gaslindir.  Talið er að vegna hlýnunar jarðar muni svæðið opnast meira í framtíðinni, sem muni bjóða upp á ný tækifæri og tekjur.

Talsmaður sænska utanríkisráðuneytisins er þeirrar skoðunar að málefni sem snerti norðurskautið eigi að vera rætt á fundum Norðurheimsskautsráðsins, sem hittist reglulega. Þar eiga frumbyggjar sæti.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert