Einkaleyfi á DNA felld úr gildi

Teikning af hluta DNA keðju.
Teikning af hluta DNA keðju.

Gengi hlutabréfa margra líftæknifyrirtækja lækkaði í gær eftir að bandarískur dómari felldi úr gildi tvö einkaleyfi á erfðaefni. Úrskurðinn skapar efasemdir um gildi þúsunda slíkra einkaleyfa. Hæstiréttur Bandaríkjanna mun fljótlega kveða upp dóm sem talinn er hafa áhrif á gildi einkaleyfa almennt.

New York Times fjallaði í gær um áhrif úrskurðarins um DNA-einkaleyfin á líftæknifyrirtæki, m.a. þau sem selja svonefnd erfðapróf. Héraðsdómari á Manhattan úrskurðaði á mánudaginn var að hluti af einkaleyfum sem fyrirtækið Myriad Genetics hafði skráð á tveimur erfðavísum sem tengjast brjóstakrabbameini væru ógildur. 

Myriad hefur greint þessa erfðavísa í dýrum erfðaprófum sem m.a. sýna hve miklar líkur eru á að hver kona geti fengið krabbamein í brjóst eða eggjastokka. Úrskurðurinn kom mörgum lögfræðingum sem vinna á þessu sviði á óvart.

Áhrif úrskurðarins verða lítilvæg til skamms tíma því hann nær einungis til þeirra erfðavísa sem úrskurðurinn snerti og fordæmisgildi hans er talið lítið. 

Annar dómur sem talinn er geta haft miklu víðtækari áhrif er yfirvofandi. Það er dómur Hæstaréttar Bandaríkjanna í svonefndu Bilski máli. Það snýst ekki um einkarétt á erfðaefni heldur um aðferðir í vogunarviðskiptum með verðbréf. En niðurstaða málsins mun engu að síður verða leiðbeinandi um einkaleyfi og gildi þeirra, þ.e. hvað er hægt að einkaleyfisskrá.

Vitnað er í Kára Stefánsson, forstjóra rannsókna hjá DeCode Genetics, sem segir: „Við bíðum enn eftir Bilski málinu og höldum niðri í okkur andanum.“ DeCode Genetics hefur selt svipuð erfðapróf og þau sem Myriad hefur boðið til sölu. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert