Þrír létu lífið og sex særðust í Washington, höfuðborg Bandaríkjanna, í gærkvöldi þegar skotið var á hóp fólks úr bíl, sem ekið var framhjá. Lögreglan er með þrjá í haldi. Ekki er vitað hver ástæðan fyrir morðárásinni var.
Lögreglan segir, að skotið hafi verið úr byssum á hóp fólks í suðausturhluta borgarinnar. Þeir sem urðu fyrir skotunum, sex karlmenn og þrjár konur, voru flestir á þrítugs- og fertugsaldri. Einn lést á staðnum, einn var látinn þegar komið var á sjúkrahús og sá þriðji lést á skurðarborðinu. Einn hinna særðu er í lífshættu.
Lögreglan veitti bíl eftirför og notaði til þess þyrlur. Fjórir lögreglumenn slösuðust í eftirförinni en á endanum voru þrír handteknir og hald lagt á vopn.
Alls voru framin 143 morð í Washington á síðasta ári og hafa þau ekki verið færri á einu ári í hálfa öld.