Belgar vilja banna andlitsblæju

Reuters

Nefndarmenn innanríkismálanefndar á þinginu í Belgíu hefur komist að þeirri niðurstöðu að banna eigi konum að bera andlitsblæjur opinberlega. Bannið tekur þó ekki gildi fyrr en belgíska þingið hefur greitt um það atkvæði og komist að sömu niðurstöðu. Frá þessu er greint á vef breska ríkisútvarpsins.

Að sögn heimildamanna má búast við því að atkvæðagreiðslan í þinginu fari fram innan nokkurra vikna og því gæti Belgía orðið fyrsta landið í Evrópu þar sem andlitsblæjur verða bannaðar. Frakkar hafa um nokkurt skeið einnig íhugað að setja sambærilegt bann þar í landi.

Samkvæmt því sem fram kemur á vef breska ríkisútvarpsins búa um hálf milljón múslima í Belgíu, en aðeins er talið að nokkrir tugir þeirra beri andlitsblæjur sem hylji allt andlitið.
Í nokkrum héröðum landsins hefur bann við að klæðast búrkum á opinberum vettvangi þegar tekið gildi, en bannið byggir á gömlum lögum sem upphaflega var ætlað að hindra fólk í að hylja andlit sín að fullu fyrr á tímum þegar karnival fór reglulega fram.

Í banninu sem þingnefndin samþykkti er kveðið á um að bannað verði að bera andlitsblæjur á svæðum sem aðgengileg eru almenningi. Slíkt myndi fela í sér að bannað væri að bera slíkar blæjur á götum úti sem og um borð í almenningssamgöngum, en þeir sem brjóta bannið mega búast við sektum og jafnvel fangelsisvist.

Denis Ducarme, meðlimur í belgsíka miðhægri umbótaflokknum, sem lagði bannið til segist munu verða „stoltur verði Belgía fyrsta landið í Evrópu sem þori að banna andlitsblæjur.“ Annars samflokksmaður hans, Corinne De Parmentier, er þeirrar skoðunar að nauðsynlegt sé að frelsa konur undan oki blæjunnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka