Loftárásir Ísraela á yfirráðasvæði Hamas-hreyfingarinnar á Gazaströndinni héldu áfram í dag. Samkvæmt frétt BBC gerðu ísraelskar herþotur minnst 13 árásir, samkvæmt heimildum úr röðum Palestínumanna, en engar fregnir hafa borist af mannfalli.
Flestar munu árásirnar hafa verið gerðar á Gaza en einnig á bæina Khan Younis og Rafah.
Skriðdrekar Ísraela réðust inn á Gazaströndinni í síðustu viku, með þeim afleiðingum að tveir Palestínumenn létu lífið og tveir ísraelskir hermenn. Voru það fyrstu hermennirnir til að falla í árásum á Gaza í eitt ár. Lýstu herskáir Hamas-liðar þeim dauðsföllum á hendur sér.
Haft er eftir fréttamanni BBC í Jerúsalem, Jon Donnison, að loftárásirnar á Gaza í dag séu þær mestu síðan í mars í fyrra. Meðal skotmarkanna voru lögreglustöðvar og æfingabúðir Hamas-liða. Þeir hafa á móti skotið eldflaugum yfir á auð svæði í suðurhluta Ísrael án þess að mannfall varð eða slys á fólki.
Hefur ólga á svæðinu aukist á ný eftir að ísraelsk stjórnvöld tilkynntu nýverið áform um að reisa 1.600 nýjar íbúðir í austurhluta Jerúsalem fyrir gyðinga.