Lögreglan í Kanada hefur fallist á að greiða pólskri konu skaðabætur í kjölfar þess að sonur hennar lét lífið á flugvellinum í Vancouver eftir samskipti hans við lögregluna. Konan, Zofia Cisowski, hafði kært lögregluna vegna málsins, en féll frá kærunni í kjölfar dómssáttar.
Sonur Cisowski, Robert Dziekanski, lét árið 2007 aðeins fertugur að aldri, eftir að lögreglan veitti honum fimm raflost og bundu hann því næst niður með harklegum hætti.
Dziekanski hafði unnið sér það til saka að vera taugaveiklaður enda að fljúga í fyrsta sinn á ævinni, en hann var á leiðinni frá Póllandi til Kanada þar sem hann hugðist setjast að hjá móður sinni. Hann talaði einungis pólsku og átti því erfitt með að rata um flugvöllinn.
Sökum þessa vafraði hann í um tíu klukkustundir við farangursböndin. Á meðan beið móðir hans eftir honum fyrir utan öryggissvæði flugvallarins. Um síðir gafst hún upp á biðinni og hélt heim á leið, enda hafði henni verið tjáð að sonur hennar hefði ekki verið um borð í flugvélinni. Þegar hann kom út og gerði sér ljóst að móðir hans biði ekki eftir honum sturlaðist hann.
„Ég felst á afsökunarbeiðnina,“ sagði Cisowski á blaðamannafundi ásamt lögmanni sínum og yfirmanni lögreglunnar. Grátklökk bætti hún við: „Það eru nú liðin tvö og hálft ár síðan sonur minn lést á flugvellinum í Vancouver. Ég velti því enn daglega fyrir mér hvernig koma hefði mátt í veg fyrir þennan harmleik.“
Atvikið vakti athygli á heimsvísu þegar myndbandsupptöku af handtökunni, sem þótti mjög harkaleg og lauk með því að Dziekanski féll í gólfið þar sem hann lést, var dreift til fjölmiðla og birt á netinu.