Á annan tug fórnarlamba barnaníðs kaþólskra presta mótmæltu fyrir utan messu í kirkju kaþólikka í New York í dag. Mótmælendur beindu ekki síst spjótum sínum að kirkjuveldinu í heild, enda hefur komið í ljós að háttsettir embættismenn í páfagarði héldu hlífiskildi yfir barnaníðingum í prestastétt.
„Ég er hér ásamt fjölmörgum öðrum til að sýna kaþólsku kirkjunni að fórnarlömb hennar munu ekki þegja lengur. Við höfum þagað allt of lengi,“ sagði Tim Walsh, 47 ára fórnarlamb barnaníðs. Hann segir tilganginn, að kirkjan viðurkenni hvað gert hefur verið og þaggi það ekki niður, enda sé það varla í anda þeirrar kristnu stefnu sem boðuð er.