Fjöldi heittrúaðra kaþólikka á Filippseyjum minnast þjáninga Jesú Krists í dag með því að hýða sig til blóðs og láta krossfesta sig í táknrænni en jafnframt afar sársaukafullri og umdeildri athöfn.
„Ég geri þetta fyrir fjölskylduna mína, svo enginn verði veikur," hefur AFP eftir Rommel David, 36 ára gömlum sjálfsskipuðum píslarvætti með kórónu úr gaddavír á höfðinu. David hefur hýtt sig á hverri páskaföstu síðustu 7 árin fyrir foreldra sína og fimm bræður en líka til að sýna trúrækni sína. „Þetta er það sársaukafyllsta sem ég hef nokkurn tíma gert...en ég geri þetta fyrir guð, þetta er mín iðrun og yfirbót."
25 manns létu krossfesta sig í morgun í steikjandi hita í bænum San Fernando. Hvert og eitt þeirra hékk í nokkrar mínútur á krossinum til að minnast þjáningar Krists 2.000 árum fyrr. Sjúkratjöldum hefur verið komið upp við staðinn og leita flestir beinustu leið þangað þegar yfirbótinni er lokið til að fá aðhlynningu, verkjalyf og stöðva blæðinguna í lófunum.
Þessi árlega athöfn dregur til sín fjölda ferðamanna yfir páskana, en í ár tók ferðamálaráð í San Fernando fyrir það að túristar létu krossfesta sig eftir reynslu fyrri ára þar sem komið hefur fyrir að uppákoman snúist upp í algeran skrípaleik, t.d. í fyrra þegar ástralski grínistinn John Safran lét krossfesta sig fyrir atriði í sjónvarpsþætti sínum.
Kirkjunnar menn eru mishrifnir af þessum sið og segir talsmaður kaþólskra biskupa á Filippseyjum að sjálfshýðing sé aldagömul aðferð til iðrunar sem ekki eigi að stunda vegna hjátrúar.