100 danskir hermenn komust ekki heim frá Afganistan

Boeing 737-800 farþegaþota frá Primera Air.
Boeing 737-800 farþegaþota frá Primera Air.

Hundrað danskir hermenn, sem áttu að fara heim frá Afganistan fyrir páskana, komust ekki frá Kabúl vegna þess að stjórnvöld í Úsbekistan afturkölluðu leyfi, sem veitt hafði verið til að fljúga yfir Úsbekistan á leiðinni heim með hermennina. Til stóð að flugvél frá íslenska flugfélaginu Primera Air sækti hermennina en hún varð að snúa við á miðri leið.

Talsvert er fjallað um málið í dönskum fjölmiðlum í dag og kemur þar fram, að um hafi verið að ræða mistök í pappírsvinnu en hver virðist vísa á annan. Dönsk stjórnvöld fengu fyrirtækið DSV þann 13. mars til að sjá um heimflutning hermannanna og það fyrirtæki leigði flugvél hjá Primera Air, sem er með höfuðstöðvar í Billund í Danmörku.

Svo virðist, sem Úsbekistan veiti því aðeins leyfi til að fljúga yfir landið með hermenn, að það séu stjórnvöld í viðkomandi ríki sem sæki um slíkt leyfi. Því var leyfið upphaflega veitt þar sem Úsbekar töldu að danski herinn hefði sótt um það, en þegar í ljós kom að borgaralegt fyrirtæki hafði sótt um leyfið var það afturkallað.

Michael Langeberg, talsmaður danska flughersins, segir við Jótlandspóstinn að herinn beri ekki ábyrgð á þessum mistökum. Talsmaður DSV segir að fyrirtækið beri heldur ekki ábyrgð á mistökunum en vill þó ekki segja hvar ábyrgðin liggur.

Það tekur að minnsta kosti 10 daga að fá yfirflugsleyfi í Úsbekistan. Jón Karl Ólafsson, framkvæmdastjóri Primera Air, segir við Politiken, að flugfélagið hafi verið beðið fyrir viku að sækja hermennina. Flugfélagið hafi þegar í stað gert ráðstafanir til að fá yfirflugsleyfibæði í Aserbaíjan og Úsbekistan. Aserbaíjan hafi neitað en engin svör bárust frá Úsbekum.

Flugvél Primera er var lögð af stað til Afganistan en þegar hún millilenti í Tyrklandi komst hún ekki lengra og var því snúið við.

Hermennirnir 100 verða nú fluttir frá Kabúl til herstöðvarinnar Manas í Kírgistan. Þaðan verða þeir fluttir með bandarískum Hercules-flutningavélum til Leipzig í Þýskalandi og þangað mun danski flugherinn sækja þá og flytja til Kastrupflugvallar og áfram til Jótlands. Reiknað er með að hermennirnir komi til bækistöðva sinna í Álaborg síðdegis á mánudag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka