Jórdanskur karlmaður sem grunaður er um að stunda skipulagða sölu á líffærum mansalsfórnarlamba var handtekinn í Jemen þegar hann reyndi að flýja til Egyptalands í fylgd með sjö fórnarlamba sinna. Þetta kemur fram á vef innanríkisráðuneytisins í Jemen.
„Öryggissveitir í höfuðborginni hafa handtekið Ramzi Khalil Abdullah, sem er jórdanskur karlmaður grunaður um líffærasölu, þegar hann reyndi að flýja til Egyptalands ásamt sjö fórnarlömbum frá Jemen,“ segir m.a. á vef ráðuneytisins. Abdullah hefur verið eftirlýstur vegna ásaka þess efnis að hann blekkti fólk til þess að selja úr sér nýrun.
Fórnarlömbin sjö sem voru í fylgd með Abdullah eru á aldrinu eru á aldrinum 20 til 45 ára. Að sögn stjórnvalda hafði fólkið verið blekkt til þess að fylgja Abdullah til Egyptalands gegn loforði um greiðslur fyrir líffæri þeirra. Ekki kemur fram hversu háum fjárhæðum fórnarlömbunum hafði verið lofað. Jemen er eitt fátækasta landið í Mið-Austurlöndum.
Talsmenn Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar sem og Sameinuðu þjóðanna hafa lengi haft áhyggjur af því að í Egyptalandi þrífist mikill markaður fyrir ólöglega sölu á líffærum, en árlega berast fréttir af því að hundruðir fátækra íbúa neyðist til þess að selja úr sér nýrun eða hluta af lifrinni til þess að reyna að hafa í sig og á, kaupa nauðþurftir eða greiða niður skuldir.
Þingið í Kaíró samþykkti í febrúar sl. lög þar sem reynt er að stemma stigu við líffærasölu og koma einhvers konar skipulagi á athæfið.