Afdrif sænska stjórnarerindrekans Raoul Wallenbergs hafa verið Svíum ofarlega í huga allt frá því hann hvarf í lok síðari heimsstyrjaldar árið 1945. Nú hafa fundist skjöl sem benda til þess, að Wallenberg hafi verið á lífi viku eftir að sovésk stjórnvöld tilkynntu að hann hefði látist úr hjartaáfalli í fangelsi í Moskvu.
Vadim Birstein, sem á sæti í sænsk-rússneskum rannsóknarhópi sem rannsakar dauða Wallenbergs, segir að þessi skjöl séu afar mikilvæg. „Þau sýna að það sem Sovétríkin héldu fram fyrir 60 árum var lygi," hefur AFP fréttastofan eftir Birstein.
Wallenberg starfaði sem sendimaður í Búdapest í Ungverjalandi þegar það var hersetið af nasistum. Honum tókst að bjarga þúsundum gyðinga frá því að lenda í útrýmingarbúðum nasista. Eftir að sovéskar hersveitir hernámu Ungverjaland í janúar 1945 var Wallenberg handtekinn. Sovétmenn sögðu löngu síðar, að Wallenberg hefði látist í sovésku fangelsi 17. júlí 1947 af völdum hjartaáfalls og rússnesk stjórnvöld staðfestu árið 2001 að Wallenberg hefði látist þennan dag en að leynilögregla Stalíns hefði tekið hann af lífi.
Lík Wallenbergs hefur aldrei fundist og bæði fjölskylda hans og alþjóðlegir sérfræðingar hafa borið brigður á yfirlýsingar Sovétmanna.
Vadim Birstein og þýsk samstarfskona hans, Susanne Berger, segjast í nóvembar á síðasta ári hafa fengið í hendur skjal, sem sýni, að Wallenberg hafi verið fangi númer 7, sem var yfirheyrður í Lubjanka-fangelsinu í Moskvu 23. júlí 1947.
Berger sendi árið 2001 frá sér skýrslu ásamt fleiri sagnfræðingum þar sem leitt var að því líkum að Wallenberg hafi verið haldið sem einangruðum „leynifanga" í sovéskum fangelsum áður en hann var fluttur á geðspítala í úthverfi Moskvu árið 1981.
Í skýrslunni var því haldið fram að Sovétmenn hafi haldið Wallenberg á lífi í þeim tilgangi að nota hann sem skiptimynt gagnvart Vesturlöndum. Héldu sérfræðingarnir því fram að sovétmenn hafi reynt nokkrum sinnum að skipta á Wallenberg og njósnurum. Einkum og sér í lagi á sjöunda áratugnum er þeir reyndu að skipta á honum og sænska njósnaranum Stig Wennerström, sem afhjúpaður var í Svíþjóð fyrir njósnir í þágu Moskvuvaldsins. Slíkum skiptum hafi sænsk yfirvöld hins vegar hafnað.