Norskur biskup beitti ofbeldi

Georg Müller, fyrrverandi Þrándheimsbiskup, hefur játað að hafa beitt ungan altarisdreng kynferðislegu ofbeldi fyrir um 20 árum. Kaþólska kirkjan í Noregi greindi frá þessu í morgun. Müller lét af embætti í fyrra af þessari ástæðu.

Georg Müller er þýskur að ætt. Hann fæddist nálægt Trier í Þýskalandi og er nú 58 ára gamall.  Adresseavisen greindi fyrst frá málinu. Þar kemur m.a. fram að Müller hafi játað ódæðið þegar saga fórnarlambsins var borin upp á hann.

Biskupinn greindi frá því við hámessu í kaþólsku kirkjunni í Þrándheimi 7. júní í fyrra að hann hafi verið leystur frá embætti. Tilkynningin kom söfnuðinum mjög á óvart. Hin opinbera skýring þá var samstarfserfiðleikar í söfnuðinum. 

Eftir að Adresseavisen hafði ítrekað spurst fyrir um málið kom staðfesting í gær um raunverulega ástæðu þess að biskupinn var látinn víkja. Nefnd í Vatíkaninu, sem lýtur stjórn Joseph Levada, ákvað þá að svipta hulunni af málinu.

Bernt Eidsvig, biskup Þrándheims og Oslóar, greindi frá yfirlýsingu Vatíkansins í gær. Þar kom m.a. fram að ásakanir um kynferðislegt ofbeldi af hálfu Müllers gegn barni hafi borist Vatíkaninu í febrúar í fyrra. Við rannsókn málsins hafi Müller játað ásakanirnar og að fallist hafi verið á afsögn hans.

Fórnarlambið, sem Müller beitti ofbeldi fyrir um 20 árum, er nú á fertugsaldri.  Kaþólska kirkjan hefur greitt fórnarlambinu skaðabætur sem nema um eins árs launum eða 400-500 þúsund norskum krónum (8,6-10,8 milljónum íslenskra króna), samkvæmt upplýsingum Adresseavisen.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert