Starfsmenn í vörugeymslu bruggverksmiðju Carlsbergs í Danmörku eru farnir í verkfall. Þeir vilja með þeim hætti mótmæla þeirri ákvörðun að þeir megi aðeins drekka einn bjór á vinnutíma í stað þriggja sem þeir höfðu áður rétt á. Frá þessu er greint danska dagblaðsins Politiken.
Nýja áfengisreglan fellur ekki í kramið hjá öðrum starfsmönnum Carlsbergs og því eru bílstjórar fyrirtækisins og aðrir starfsmenn í framleiðslu farnir í samúðarverkfall.
„Það stemmir að við þurfum að glíma við verkfall starfsmanna. Við breyttum áfengisstefnu fyrirtækisins þegar við gerðum okkur grein fyrir því að aðeins um 7% fyrirtækja leyfa starfsmönnum sínum að drekka áfengi á vinnutíma. Sökum þessa hefur frá 1. apríl sl. gilt sú regla hjá okkur að starfsmenn mega aðeins drekka einn bjór með hádegismatnum í mötuneytinu, en ekkert meira en það,“ segir Jens Bekke, upplýsingafulltrúi Carlsbergs í Danmörku.
„Starfsmenn líta hins vegar svo á að þeir hafi unnið sér inn rétt til þess að drekka þrjár bjórflöskur á hverjum degi. Þeir telja að nýja áfengisstefnan okkar broti á rétti þeirra.“
Jens Bekke veit enn ekki hvenær starfsfólk fyrirtækisins hyggst snúa aftur til starfa. Hann bendir á að vinnuréttur hafi í dag komist að þeirri niðurstöðu að verkfallið sé ólöglegt. Síðar í þessum mánuði taka verkalýðsfélagið 3F og Samtök iðnaðarins í Danmörku afstöðu til málsins.