Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, hyggst taka hart á háum bónusgreiðslum fjármálafyrirtækja og koma í veg fyrir að starfsmenn þessara fyrirtækja taki áhættu sem geti valdið erfiðleikum í efnahagslífinu.
Þetta kom fram í ræðu sem Brown hélt fyrir hagfræðinga og leiðtoga í viðskiptalífinu í dag og er meðal stefnumála Verkamannaflokksins fyrir kosningarnar í 6. maí.
„Í ár höfum við séð kærkomna lækkun bónusgreiðslna, en við verðum að tryggja að sú breyting haldi. Að hér sé ekki bara um lítið frávik að ræða sem sé tilkomið vegna þrýstings frá almenningi,“ hefur Daily Telegraph eftir Brown.
„Í stefnuskrá okkar er Fjármálaeftirlitinu veitt völd til að ógilda samninga sem hvetja til áhættu og óöryggis. Sýni það sig að bónusgreiðslur fari að hækka á ný þá munum við bregðast við.“
Brown varaði ennfremur við því að skammtímahugsunarháttur bankastofnanna yrði að víkja. Ríkisstjórn Bretlands væri tilbúinn að gera mun meira af því að grípa inn í í framtíðinni.
„Markaðir þurfa siðferðisvitund,“ sagði hann. Markaðir eru byggir á gildum sem þeir framleiða ekki sjálfir.