Ræða aðgerðir gegn Íran

Kjarnorkuáætlun Írana veldur mörgum ríkjum áhyggjum.
Kjarnorkuáætlun Írana veldur mörgum ríkjum áhyggjum. Reuters

Fulltrúar sex valdamestu ríkja Sameinuðu þjóðanna funda í New York til að ræða mögulegar aðgerðir vegna kjarnorkuáætlunar Írans. Vonast menn til að tillaga að ályktun sem lögð verði fyrir Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna muni liggja fyrir að fundi loknum.

Kína og Rússland hafa til þessa neitað að styðja þær aðgerðir sem Bandaríkin og fulltrúar Evrópuríkja hafa lagt til. Barack Obama Bandaríkjaforseti hvatti til ákveðinna aðgerða gegn Íran á fundi sínum með Dimitrí Medvedev, forseta Rússlands, í Tékklandi í dag. Medvedev kvaðst hins vegar eingöngu styðja skynsamlegar aðgerðir. 

„Því miður er Teheran ekki að bregðast við þeim fjölda uppbyggilegra málamiðlana sem lagðar hafa verið fram. Við getum ekki horft framhjá því,“ sagði Medvedev eftir að hafa undirritað ásamt Obama samning sem gerir ráð fyrir verulegri fækkun kjarnavopna.

Rússar, líkt og Kínverjar, geta beitt neitunarvaldi  og þar með hindrað hugsanlegar aðgerðir Sameinuðu þjóðanna gegn Íran.

Stjórnvöld í Íran halda því hins vegar fram að þau ætli eingöngu að vinna úran í friðsamlegum tilgangi.

Kínverjar staðfestu í dag að þeir muni taka þátt í viðræðunum í New York um aðgerðir gegn Íran. Auk þeirra sitja fundinn fulltrúar Bandaríkjanna, Rússlands, Bretlands, Frakklands og Þýskalands. Vonast menn til að tillaga að ályktun sem lögð verði fyrir Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna muni liggja fyrir að fundi loknum.

Hefur Reuters-fréttastofan eftir Susan Rice, sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum að þjóðirnar munu ná samkomulagi á næstu vikum. Tillaga Bandaríkjamanna nýtur stuðnings evrópskra bandamanna og að sögn bandarískra diplómata myndar hún grunninn að þeim aðgerðahugmyndum sem kynntar hafa verið Rússum og Kínverjum.

Sl. föstudag hringdi Obama í Hu Jintao forseta Kína til að leita eftir stuðningi hans, en kínversk yfirvöld hafa ekki vilja tjá sig um málið. Átti símtal Obama til forsetans sér stað á sama tíma og æðsti yfirmaður kjarnorkumála í Íran, Saeed Jalili, var í heimsókn í Peking.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert