Rétt 70 ár eru í dag, 9. apríl, liðin frá því Þjóðverjar gerðu innrás í Noreg og Danmörku. Skoðanakönnun, sem stofnunin Rambøll Analyse hefur gert fyrir Jyllands-Posten, sýnir að aðeins um 17% Dana á aldrinum 18-25 ára vita hvaða merkingu þessi dagsetning hefur í danskri sögu.
Blaðið hefur eftir Ditlev Tamm, prófessor við Kaupmannahafnarháskóla, að þessar niðurstöður veki upp margar spurningar.
„Þetta er áfellisdómur yfir danska skólakerfinu. Ef við sem þjóð höfum ekki lengur sameiginlega þekkingu um atburði, sem vert er að minnast, þá er fátt sem við getum talað saman um lengur. Þetta snýst um grundvöll samfélagsins," segir Tamm.
Tina Nedergaard, menntamálaráðherra, segir að þeir sem upplifðu innrásina og hernámið sem fylgdi á eftir eigi það skilið að danska þjóðin þekki þýðingu dagsetningarinnar 9. apríl þegar þeir útskrifast úr grunnskólum.
Mánuði eftir að Þjóðverjar réðust inn í Danmörku og Noreg, eða 10. maí 1940, hernámu Bretar Ísland.