Breska blaðið The Times segir í dag, að þeir George W. Bush, fyrrum Bandaríkjaforseti, Dick Cheney, varaforseti hans og Donald Rumsfeld, fyrrverandi varnarmálaráðherra, hafi vitað árið 2002 að meirihluti fanganna í Guantánamo-fangabúðunum á Kúbu voru saklausir.
Leiðtogarnir vildu hins vegar ekki að fangarnir yrðu leystir úr haldi vegna þess að það myndi skaða hernaðinn í Írak og draga úr stuðningi við alþjóðlegt stríð gegn hryðjuverkamönnum.
The Times segir, að Lawrence Wilkerson, fyrrum starfsmannastjóri Colins Powells, þáverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, fullyrði þetta í yfirlýsingu sem fylgi með í málsskjölum vegna skaðabótamáls fyrrum fanga í Gunatánamo-búðunum.
Wilkerson gagnrýnir Cheney og Rumsfeld harðlega og segir að þeir hafi vitað að flestir þeirra 742 fanga, sem voru í Guantánamo-búðunum árið 2002 hafi verið saklausir. Hins vegar hafi þeir talið, að „pólitískt" væri ómögulegt að sleppa þeim.
Powell lét af ráðherraembætti árið 2005 en hann var afar ósáttur við að hafa veitt rangar upplýsingar þegar hann rökstuddi hernaðinn í Írak á fundi hjá Sameinuðu þjóðunum. The Times segir, að Powell muni hafa stutt það, að Wilkerson gæfi umrædda yfirlýsingu.
Enn eru um 180 fangar í Guantánamo-búðunum.