Tvíburabróðir forsetans niðurbrotinn

Jaroslaw Kaczynski, tvíburabróðir hins sáluga Lech Kaczynski forseta Póllands.
Jaroslaw Kaczynski, tvíburabróðir hins sáluga Lech Kaczynski forseta Póllands. Reuters

Dauði pólska forsetans Lech Kaczynski, í flugslysi í Rússlandi í morgun hefur skilið tvíburabróður hans, Jaroslaw, eftir harmi sleginn. Aðstoðarmaður Jaroslaws sagði í samtali við blaðamann AFP í dag, að hann Jaroslaw reyni þó að herða upp hugann.

Pólska fréttastofan PAP hefur sagt af því fréttir í dag að Jaroslaw Kaczynski hyggist fara á brotlendingarstaðinn í Rússlandi við fyrsta tækifæri. Bróðirinn eftirlifandi er sem stendur formaður helsta stjórnarandstöðuflokksins í Póllandi.

Móðir þeirra bræðra, Jadwiga Kaczynski, sem er 84 ára gömul, hefur verið á spítala í meira en mánuð, mikið veik. Aðstoðarmaður sonar hennar sagðist í samtali við AFP ekki vita hvort Jadwiga hefði verið látin vita af andláti sonar hennar strax í morgun.

Lech Kaczynski var þriðji lýðræðislega kjörni forseti Póllands eftir hrun kommúnismans árið 1989. Forverar hans voru frelsishetjan Lech Walesa og Aleksander Kwasniewski.

Tvíburabræðurnir fóru með stjórnartaumana í landinu á sama tíma, frá júlí 2006 fram í nóvember 2007, þegar Jaroslaw var forsætisráðherra og Lech var forseti.

Flugslysið varð þegar verið var að reyna að lenda flugvélinni í mikilli og þykkri þoku í borginni Smolensk í vesturhluta Rússlands snemma í morgun. Þar ætlaði forsetinn, kona hans og margir aðrir háttsettir embættismenn og samverkamenn foretans að vera viðstaddir minningarathöfn um 22.000 pólska hermenn sem Stalín lét myrða í Katyn-skógi og víðar í Rússlandi og Úkraínu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka