Flugvél með forseta Póllands, Lech Kaczynski, hrapaði nú á áttunda tímanum í nágrenni við rússneskan flugvöll. Samkvæmt rússneskum fjölmiðlum létust 87 manns í slysinu. Að sögn Sergei Antufiev, fylkisstjóra í Smolensk, lifði enginn slysið af.
„Vélin braut trjátoppa, steyptist niður og brotnaði í marga hluta,“ hefur sjónvarpsstöðin Russia-24 eftir Antufiev. „Það lifði enginn slysið af.“
Flugvélin var á leið til til Smolensk í vesturhluta Rússlands þegar hún hrapaði. Var Kaczynski á leið til borgarinnar til að minnast þess að 70 ár eru nú liðin frá Katyn blóðbaðinu, þegar að hersveitir Sovétmanna drápu þúsundir Pólverja.