Lech Kacynski, forseti Póllands, sem lést í flugslysi í morgun, var 60 ára að aldri. Eiginkona hans, María. lést einnig sem og aðrir í forsetavélinni, en þau láta eftir sig eina dóttur. Kacynski þótti umdeildur maður og var óhræddur við að ganga gegn viðteknum venjum og skoðunum.
Hann varð forseti Póllands árið 2005 en hafði þar áður verið borgarstjóri Varsjár frá árinu 2002. Á seinni árum hefur hann þó öðlast meiri vinsældir meðal Pólverja, einkum þjóðernissinna og fólks í hinum dreifðu byggðum landsins. Kjörtímabili forsetans lýkur á þessu ári og kosningar voru fyrirhugaðar í sumar.
Kacynski stofnaði stjórnmálaflokkinn Lög og rétt árið 2001, PIS, ásamt tvíburabróður sínum, Jaroslaw Kacynski, og bauð sig fram til forseta undir merkjum þess flokks. Jaroslaw Kacynski varð svo forsætisráðherra Póllands í júlí árið 2006 og gengdi því embætti í rúmt ár. Hann er nú formaður PIS.
Bannaði skrúðgöngur samkynhneigðra
Í borgarstjóratíð sinni bannaði Lech Kacynski skrúðgöngur samkynhneigðra og talaði fyrir því að teknir yrðu upp dauðadómar að nýju í Póllandi. Þá sagði hann fótboltabullum stríð á hendur eftir uppþot á knattspyrnuvelli í Póllandi fyrir fáum árum.
Í aðdraganda forsetakosninganna árið 2005 lagði hann mikið upp úr því að Pólverjar þyrftu forseta sem myndi berjast fyrir þeirra brýnustu hagsmunamálum. Landið þyrfti á róttækum breytingum að halda til að losna undan viðjum kommúnismans, en Kacynski-bræðurnir hafa þótt mjög hægrisinnaðir í stjórnmálum.
Studdi Walesa til valda en var svo rekinn
Bræðurnir hófu afskipti af stjórnmálum fyrir um 40 árum og gengu þá í raðir stjórnarandstæðinga sem studdu aðgerðir verkalýðshreyfingarinnar Samstöðu í Gdansk. Voru þeir handteknir í verkfallsaðgerðunum kringum 1980 og síðar studdu þeir Lech Walesa til valda í forsetakosningunum árið 1990. Starfaði Kacynski með Walesa um hríð en upp kom ósætti á milli þeirra, er varð til þess að Walesa rak hann úr embætti.
Walesa þótti stuðningur bræðranna á sínum tíma ekki gegnheill því á síðasta ári lagði hann fram kæru á hendur Kacynski forseta fyrir njósnir á vegum leyniþjónustu kommúnista í Póllandi á áttunda áratug síðustu aldar.
Í umfjöllun BBC um pólska forsetann kemur m.a. fram að Kacynski-bræðurnir hafi snemma öðlast frægð í landinu. Aðeins 12 ára gamlir, árið 1962, léku þeir í kvikmynd, Strákarnir tveir sem stálu tunglinu. Faðir þeirra var í andspyrnuhreyfingunni í seinni heimsstyrjöldinni og í þeim uppvexti er forseti Póllands sagður hafa ræktað með sér þjóðernishyggju.