Benedikt páfi sextándi bað fyrir Pólverjum og fórnarlömbum flugslyssins við sunnudagsmessu í sumardvalarstað sínum suður af Róm í dag, Castel Gandolfo. Minntist hann í messunni ekkert á ásakanir á hendur honum fyrir að hylma yfir kynferðisbrotum innan kaþólsku kirkjunnar.
Páfi vottaði Pólverjum sína dýpstu samúð og við messuhaldið sungu nunnur og fóru með bænir. Fjöldi fólks var viðstaddur athöfnina, til að hlýða á orð páfa. Langstærstur hluti Pólverja tilheyrir inni rómansk kaþólsku kirkju og forveri Benedikts í embætti, Jóhannes Páll páfi annar, var sem kunnugt er pólskur.
Messan í dag var fyrsti opinberi viðburður páfa eftir að ásakanir komu fram sl. föstudag á hendur honum, fyrir að hafa í störfum sínum innan kaþólsku kirkjunnar reynt að gera lítið úr og jafnvel breiða yfir kynferðisbrot gegn börnum innan kirkjunnar gegnum árin. Sjálfur hefur páfi ekki tjáð sig um þessar ásakanir en Vatikanið hefur vísað þeim á bug.
Fram hefur komið í fréttum að páfi geti átt von á handtökuskipun er hann fer í opinbera heimsókn til Bretlands í haust, fyrir glæpi gegn mannkyninu. Hafa kunnir trúleysingjar þar í landi fengið virta lögmenn, sérhæfða á sviði mannréttindabrota, til að kanna möguleika á slíkri skipun.