Forsætisráðherra Taílands sagði í morgun, að hryðjuverkamenn hefðu stuðlað að mannskæðum óeirðum í höfuðborginni Bangkok um helgina. 21 lét lífið og yfir 800 særðust í átökum í borginni.
„Það er ljóst, að hryðjuverkamenn beittu óbreyttum borgurum til að hvetja til uppþota og vonast til að fá með þeim hætti fram breytingar á þjóðskipulagi okkar," sagði Abhisit Vejjajiva, forsætisráðherra, í sjóvarpsávarpi.
„Við þurfum að greina saklaust fólk frá hryðjuverkamönnum og síðan getum við gripið til frekari aðgerða. Hann sagði að stjórnmálakerfi landsins muni fjalla um friðsamlegar kröfur almennra mótmælenda um lýðræði.