Forsetahjónin jörðuð á sunnudag

Tadeusz Mazowiecki, fyrrverandi forsætisráðherra Póllands gengur framhjá kistum forsetahjónanna.
Tadeusz Mazowiecki, fyrrverandi forsætisráðherra Póllands gengur framhjá kistum forsetahjónanna. Reuters

Útför Lech Kaczynski, forseta Póllands, og konu hans Maríu verður haldin við Vorrar frúar kirkju í Kraká á sunnudag. Forsetahjónin verða síðan jarðsett við Wawel kastalann í suðurhluta borgarinnar.

Stanislaw Dziwisz, kardínáli og erkibiskup Kraká, sagði útförina verða haldna klukkan tvö og að messað yrði utan við Vorrar frúar kirkju. Líkfylgdin mun  síðan halda til Wawel þar sem forsetahjónin verða lögð til hinstu hvílu við hlið Józef Klemens Piłsudski, stofnanda annars pólska lýðveldisins, en hann lést árið 1935.

Forsetahjónin létust í flugslysi við flugvöllinn í Smolensk í Rússlandi ásamt 94 öðrum, m.a. þingmönnum pólska þingsins og yfirmönnum hersins. Var pólska sendinefndin á leið til Smolensk til að vera viðstödd minningarathöfn um rúmlega 20 þúsund pólska liðsforingja og liðsforingjaefni sem Sovétmenn myrtu í Katyn-skógi 1940 þegar flugvélin fórst.

Lík Kaczynski var flutt heim á sunnudag og lík konu hans kom til Póllands í gær. Liggja þau nú í lokuðum kistum í forsetahöllinni svo að syrgjendur geti vottað þeim virðingu sína.

Sérstök minningarathöfn verður haldin um alla þá sem létust í slysinu í Varsjá á laugardag. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert