Um fjögurhundruð manns fórust í öflugum jarðskjálfta í vesturhluta Kína á áttunda tímanum í morgun að staðartíma. Óttast er að þúsundir til viðbótar séu særðar, en skjálftinn nam 6.9 á richter skala.
Skjálftinn varð í hinni afskekktu Yushu-sýslu í Qinghai héraði og er talið að upptök hans hafi verið á um 10 km dýpi. Verst úti varð bærinn Jiegu og eru flestar byggingar þar ónýtar auk þess sem skriður hafa gert vegi ófæra.
Að sögn lögreglu hafa hundruð manna sem lifðu skjálftann af verið grafin úr rústum húsanna og a.m.k. einni flugvél með hjálpargögnum hefur tekist að lenda á flugvelli bæjarins.
Huang Liming, einn af æðstu stjórnendum bæjarins, hefur tilkynnt að a.m.k. 400 manns hafi farist í skjálftanum og ríkisfjölmiðlar segja ríflega 10.000 manns hafa slasast.
BBC hefur eftir einum embættismanna Jiegu að hér um bil öll hús í bænum hafi skemmst. „Tala látinna á örugglega eftir að hækka,“ sagði hann.
U.þ.b. 5.000 björgunarmenn hafa verið sendir á svæðið frá nágrannahéruðum auk neyðarbúnaðar.
Fjöldi manns flúði þá upp í fjöll í nágrenninu vegna ótta við að stífla í næsta nágrenni kynni að bresta í eftirskjálftunum. Segja kínverskir ríkisfjölmiðlar starfsmenn nú vinna að því að tæma stíflulónið til að gera við sprungu sem kom í stífluna.
2008 varð öflugur jarðskjálfti í nágrannahéraðinu Sichuan og létust þá 87.000 manns og fimm milljónir misstu heimili sín.