Norræn heilbrigðisyfirvöld í viðbragðsstöðu

Ólafur Eggertsson á Þorvaldseyri tók þessa mynd af gosmekkinum frá …
Ólafur Eggertsson á Þorvaldseyri tók þessa mynd af gosmekkinum frá Eyjafjallajökli. Reuters

Heilbrigðisyfirvöld og sérfræðingar í Noregi og Svíþjóð hvöttu í kvöld til þess að fólk væri á verði vegna gjóskuskýs frá Eyjafjallajökli, sem borist hefur yfir Skandínavíu. Ekki er talið að heilsu fólks stafi hætta af gjóskunni en askan gæti haft áhrif á sjúkraflug á svæðinu.

Anne-Grete Størm-Erichsen, heilbrigðisráðherra Noregs, sagði við blaðamenn í kvöld að þarlend stjórnvöld myndi gera það sem í þeirra valdi stæði til að draga úr áhrifum þess að sjúkraflugvélar geta ekki farið á loft.

Þá sagði ráðherrann, að stjórnvöld væru einnig að gera ráðstafanir ef gjóskan ógnaði heilsu fólks en  Kjetil Tørseth hjá norsku umhverfisstofnuninni sagði að lítil hætta væri á slíku. Mælingar sýndu raunar aukið magn af metani og koltvísýringi í andrúmsloftinu en litlar líkur væru á að brennisteinsdíoxíð, sem getur skaðað gróður, berist til Noregs í miklum mæli.

Bæði Norðmenn og Svíar gera ráð fyrir einhverju öskufalli á næstu dögum en reikna ekki með að það verði í miklu magni.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert