Val á greftrunarstað fyrir pólsku forsetahjónin hefur vakið miklar deilur í Póllandi. Yfirvöld hafa ákveðið að Lech og Maria Kaczynski verði jörðuð í Wawel dómkirkjunni í Krakow, sem hingað til hefur aðeins verið greftrunarstaður fyrir pólska konunga og þjóðhetjur.
Í gærkvöldi komu hundruðir mótmælenda saman fyrir framan íverustað Stanislaw Dziwisz, erkibiskups landsins. Þeir báru borða og skilti þar sem á var letrað: „Ekki Krakow, ekki Wawel“ og „Ertu sannfærður um að hann sé jafnoki kónga?“
Andrzej Wajda, þekktur pólskur kvikmyndaleikstjóri, skrifaði grein sem birtist í dagblaðinu Gazeta Wyborcza þar sem hann sagði valið á greftrunarstað vanhugað og augljóst að ákvörðunin væri tekin af fólki í tilfinningalegu uppnámi.
„Lech Kaczynski var venjulegur og góður maður, en það er engin ástæða fyrir því að hann eigi að liggja í Wawel við hlið pólskra konunga og Marshal Jozef Pilsudski [stofnandi Póllands eins og við þekkjum það í dag].“
Yfirvöld segja að valið á greftrunarstað, nærri Marshal Pilsudski, hafi verið í höndum kirkjunnar manna og Kaczynski fjölskyldunni, þeirra á meðal Jaroslaws, tvíburabróður Lechs, sem fer fyrir stjórnarandstöðunni í Póllandi.
Að sögn Wajda mun ákvörðunin leiða til mikilla mótmæla sem gætu leitt til meiri sundrungar meðal landsmanna en sést hefðu í rúma tvö áratugi.
Fjöldi erlendra þjóðarleiðtoga verður viðstaddur jarðarförina sem fram fer á sunnudaginn. Þeirra á meðal eru Bandaríkjaforseti ásamt leiðtogum Rússlands, Frakklands og Þýskalands.
Forsetakosningar áttu að fara fram í haust, en lög landsins gera ráð fyrir að þeim verði flýtt falli þjóðarleiðtoginn frá. Reiknað er með að kosningar fari fram í landinu í júní nk. en ekki verður tilkynnt um nákvæma dagsetningu fyrr en að jarðarförinni lokinni.