Yfir 600 látnir í Kína

Björgunarsveitir leita enn í rústum bygginga sem hrundu í jarðskjálftanum sem reið yfir Qinghai hérað í Kína í gær. Stjórnvöld segja að 617 hafi látist í skjálftanum, 9,980 hafi særst og enn sé 313 saknað.

Þúsundir manna misstu heimili sín og er víða skortur á vatni og öðrum brýnum nauðsynjum. Einnig er óttast að mikill kuldi geti orðið fólki að fjörtjóni.

Skjálftinn varð í hinni afskekktu og fámennu Yushu-sýslu í Qinghai-héraði en þar búa alls rúmar fimm milljónir manna. Var skjálftinn að sögn Kínverja 7,1 stig, bandarískar stöðvar töldu hann hafa verið 6,9 stig. Skortur er á tækjum og fólk grefur í rústunum með berum höndunum í leit að ástvinum.

Forsætisráðherra Kína, Wen Jiabao, er kominn á skjálftasvæðið og ræðir við íbúa sem hafast við í neyðarskýlum, samkvæmt fréttum kínverskra fjölmiðla.

Hu Jintao, forseti Kína, hefur hætt við fyrirhugaða heimsókn til Venesúela vegna jarðskjálftans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert