„Er einhver á leið frá París til Barcelona og vill leigja með mér leigubíl?“ Þannig skrifar ferðamaður sem sett hefur upp spjallhóp á samskiptavefnum Facebook.
Milljónir ferðamanna um nánast allan heim hafa orðið fyrir óþægindum vegna röskunar á flugi í kjölfar eldgossins í Eyjafjallajökli. Margir tjá sig um stöðu sína á vefnum og reyna að leita leiða til að komast á áfangastað.
Jerome Bertin 15 ára piltur sem staddur er í Kína ásamt 40 öðrum breskum nemendum segir að búið sé að fella niður flug til Bretlands sem hópurinn átti bókað og hann hafi fengið þau svör að ekki yrði flogið fyrr en 26. apríl.
Eugene Sully skrifar og segist vera að leggja af stað með ferju frá Santurtzi á Spáni nærri Bilbao á leið til Portsmouth. Á bryggjunni séu um þúsund farþegar sem vilji komast um borð en enginn þeirra sé með miða.
Frank Gardner, starfmaður BBC er fastur ásamt fjölskyldu sinni í Kuala Lumpur. Hann segir að það sé eins konar "Dunkirk- ástand" á flugvellinum (Herir bandamanna voru fastir í Dunkirk árið 1940 þegar Þjóðverjar hröktu þá frá Frakklandi).
Margir hafa þá sögu að segja að lestarfyrirtæki séu að hækka verð á farmiðum. Gordon Brown var spurður um þetta í sjónvarpsþætti hjá Andrew Marr á BBC og sagði að það væri hneyksli ef á daginn kæmi að lestarfyrirtækin væru að reyna að nýta sér ástandið. Hann sagði meginatriðið hins vegar að tryggja öryggi í flugi.
Íslensk kona segist furða sig á verði á farmiðum Icelandair frá Þrándheimi í Noregi. Fargjaldið kosti 103 þúsund krónur.
Nick Clegg, leiðtogi Frjálslyndra í Bretlandi, segir að sonur sinn sé strandaglópur á Spáni hjá ömmu sinni. Hann segir að hann og konan sín hafi í margar klukkustundir reynt að ná sambandi við Rayanair án árangurs.
Íslenskur ferðamaður á leið til Parísar segist hafa eytt 28 mínútum í morgun við að hlusta á „lyftutónlist“ í símanum þegar hann reyndi að ná sambandi við Icelandair.
Í frétt á BBC segir að Samtök flugmanna í Bretlandi telji að ástandið kalli á aðgerðir í „bankakreppu-stíl“.