Reyndur norskur flugmaður segir að flugbannið, sem nú nær til um 30 Evrópuríkja, sem mesta móðursýkiskast sem um getur á þessari öld. Hann segir að mikill munur sé á að fljúga í öskuskýi skammt frá eldfjallinu og reyknum, sem hefur borist yfir Evrópu.
„Í skýinu sjálfu eru margar þungar agnir, sem geta verið hættulegar ef flogið er rétt hjá eldfjallinu. Það sem borist hefur til Evrópu er bara reykur og enginn getur sýnt fram á, að hann sé hættulegur. Við sjáum oft svartan snjó í austurhluta Noregs vegna iðnaðarmengunar frá Þýskalandi og við lokum ekki lofthelginni af þeim sökum," hefur blaðið Nordlys eftir Per Gunnar Stensvaag, sem verið hefur flugmaður hjá SAS í 35 ár.
Fleiri hafa lýst sömu skoðun, þar á meðal Bjørn Kjos, forstjóri Norwegian, sem gagnrýndi um helgina norskt flugmálayfirvöld yfir að hafa ekki gert sjálfstæðar mælingar á því hvort eldfjallaaska væri í loftinu yfir Noregi.
Aftenposten hefur eftir Knut Morten Johansen, upplýsingafulltrúa hjá SAS, að flugfélög og flugmenn þeirra ættu að vera ánægð með að þurfa ekki að taka ákvarðanir um flug við þessar aðstæður.
Norðmenn heimiluðu í dag flug á svæði sem nær frá Kristiansund til Berlevåg í norðvesturhluta landsins. Á sama tíma var fjórum flugvöllum í Finnmörk lokað.