Þýsk flugfélög gagnrýna flugbann

Flugfloti Lufthansa á flugvellinum í Frankfurt.
Flugfloti Lufthansa á flugvellinum í Frankfurt. Reuters

Talsmenn þýsku flugfélaganna Lufthansa og Air Berlin sögðu í dag, að ákvörðun um að loka lofthelgi flestra Evrópulanda byggðist ekki á nægilega góðum rannsóknum og tilraunaflug, sem farin voru í gærkvöldi og morgun, hefðu ekki valdið neinum skemmdum á flugvélunum.

„Ákvörðunin um að loka lofthelginni var eingöngu byggð á tölvugögnum frá  Volcanic Ash Advisory Centre í Lundúnum," sagði Joachim Hunold, forstjóri Air Berlin, við þýska blaðið Bild am Sonntag.

„Enginn veðurloftbelgur var sendur á loft til að mæla hve mikil eldfjallaaska er í loftinu," sagði Klaus Walther, talsmaður Lufthansa, við blaðið. „Flugbann, sem byggir eingöngu á tölvuútreikningum, veldur milljarða tjóni. Í framtíðinni munum við krefjast þess að áreiðanlegar mælingar verði gerðar áður en flugbann er sett."

Lufthansa sendi 10 farþegaflugvélar, án farþega, frá Frankfurt til München í gærkvöldi. Þær voru skoðaðar á eftir og engin merki sáust um að hreyflar þeirra hefðu skemmst. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert