Skemmdir urðu á hreyflum að minnsta kosti einnar F-16 orrustuflugvélar Atlantshafsbandalagsin, NATO, vegna gosösku úr Eyjafjallajökli. Askan ummyndaðist í glerung í hreyflinum, að því er fram kemur í frétt Aftenposten.
Bandarískur talsmaður NATO sagði í Brussel í dag að frumvarnarviðbúnaður NATO verði fyrir áhrifum dragi ekki fljótlega úr öskunni yfir Evrópu. Hann vildi ekki upplýsa nánar um hvar eða hvenær skemmdir urðu á F-16 þotunni.
Sem kunnugt er urðu finnskar orrustuþotur af gerðinni F-18 Hornet fyrir miklum skemmdum við að fljúga í gegnum eldfjallaösku í háloftunum.
Askan bráðnar í hreyflunum og myndar eins konar glerhjúp sem sest á innviði hreyflanna veldur því m.a. að loftvegir þeirra stíflast. Hætt er við að hreyflarnir ofhitni og stöðvist af völdum skemmdanna sem askan veldur.