Flugröskunin vegna eldgossins á Íslandi hefur kostað frönsk fyrirtæki um 200 milljónir evra (um 34 milljarða kr.). Frá þessu greindu frönsk stjórnvöld í dag.
„Með hverjum degi sem líður þá bætast tugir milljóna evra við reikninginn,“ segir ferðamálaráðherrann Herve Novelli. Hann segir að frönsk flugfélög hafi þegar tapað 150 milljónum evra. Við þetta bætist kostnaður annarra fyrirtækja í ferðaþjónustu.
Novelli fór yfir stöðu mála í dag og ræddi aðgerðir með yfirmönnum stærstu ferðaþjónustufyrirtækja í landinu. Hann bendir á að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins verði samþykkja það eigi ríki að aðstoða flugfélög í álfunni.
Enn eru truflanir á flugsamgöngum í Frakklandi, þá sérstaklega innan Evrópu. Hvað lengri flugferðir varðar er staðan aftur orðin eðlileg. Um 85.000 franskir ríkisborgarar eru nú strandaglópar vegna eldgossins í Eyjafjalljökli.