Alþjóðahvalveiðiráðið kynnti í kvöld málamiðlunartillögu um hvalveiðar, sem felur í sér að vísindahvalveiðar Japana dragast saman um 75% á næstu 5 árum og að Íslendingar og Norðmenn fái að halda áfram atvinnuveiðum í að minnsta kosti næstu 10 ár. Er tillögunni ætlað að setja niður deilur, sem verið hafa í ráðinu áratugum saman.
Samkvæmt tillögunni, sem birt er á heimasíðu Alþjóðahvalveiðiráðsins, er gert ráð fyrir að Íslendingar veiði 80 langreyðar og 80 hrefnur árlega fram til ársins 2020. Það eru formaður og varaformaður hvalveiðiráðsins, sem leggja tillöguna fram.
Ákvæði er einnig í tillögunni um að afurðir af hvölum verði einungis seldar á heimamarkaði en það ákvæði er innan hornklofa sem þýðir, að um það er ekki samkomulag.
Japanar veiða nú 765-935 hvali í Suðurhöfum í vísindaskyni árlega. Samkvæmt tillögunni mun þessi kvóti lækka í 410 hvali á næsta ári og 205 hvali á veiðiárinu 2015-2016.
Ekki er gert ráð fyir því, samkvæmt tillögunni, að ný lönd fái að hefja hvalveiðar. Atkvæði verða greidd um tillöguna á ársfundi Alþjóðahvalveiðiráðsins í Marokkó í júní.