Muammar Gaddafi, leiðtogi Líbýu, lýsti þeirri skoðun á fundi með Hosni Mubarak, forseta Egyptalands, að öskuskýið frá Íslandi, sem stöðvaði nær alla flugumferð í Evrópu í tæpa viku, hafi verið „heilög refsing". Þetta kemur fram á egypska fréttavefnum almasryalyoum.com.
Mubarak gekkst undir mikla skurðaðgerð nýlega en hefur síðustu daga átt fundi með leiðtogum nágrannaríkja og hitti í gær Gaddafi að máli.
Haft er eftir Gaddafi, að ekkert tjón hafi orðið á svæðum Araba vegna öskuskýsins sem væri heilög refsing. Ekki kemur nánar fram fyrir hvað sú refsing var að mati Líbýuleiðtoga. Hann er jafnframt sagður hafa harmað hve Arabar væru skammt komnir í vísindaþróun.