Þriggja vikna leit að flaki flugvélar Air France, sem fórst yfir Atlantshafi 1. júní í fyrra, hefur ekki borið árangur, að sögn rannsóknanefndar flugslysa í Frakklandi. Alþjóðleg leitarsveit mun snúa til hafnar í Recife í Brasilíu og fara þar yfir gögn sem aflað var við leitina og ræða framhaldið.
New York Times greinir frá leitinni árangurslausu. Þar er rifjað upp að í fyrra var farið í tvo leitarleiðangra. Franskir flugslysarannsóknarmenn stuttust við tölvulíkön af hafstraumum og vindáttum dagana eftir flugslysið til að afmarka um 3.100 ferkílómetra leitarsvæði.
Enn var haldið til leitar 2. apríl síðastliðinn. Þá voru menn bjartsýnir á að þeim tækist að finna flak flugvélarinnar og flugrita vélarinnar. Flugvélin var af gerðinni Airbus A330 og hafði flugnúmerið 447. Hún fórst í miklu þrumuveðri á leið frá Rio de Janeiro til Parísar. Með henni fórust 228 manns, farþegar og áhöfn. Einn Íslendingur, búsettur í Noregi, var um borð í flugvélinni. Enginn komst lífs af.
Í fyrra fannst brak úr flugvélinni og 51 lík. Flugritinn og stærstu hlutar flugvélarflaksins hafa ekki fundist. Án flugritans er nær ómögulegt að komast að því hvað grandaði flugvélinni. Einu upplýsingarnar sem liggja fyrir eru skeyti frá áhöfn vélarinnar sem gáfu til kynna að bilun væri í hraðanemum.