Richard Branson, eigandi breska flugfélagsins Virgin Air, segir að flugbannið, sem sett var á í Evrópu vegna öskuskýsins frá Eyjafjallajökli hafi verið algerlega óþarft. Krefst hann þess, að bresk stjórnvöld bæti þarlendum flugfélögum upp tapið sem þau urðu fyrir vegna flugbannsins.
„Okkar verkfræðingar og allir sérfræðingar sögðu okkur að það væri engin hætta við að fljúga og það hefði aðeins verið hættulegt ef við hefðum flogið nálægt Íslandi," hefur norska blaðið Aftenposten eftir Branson.
Hann segist telja, að hægt hefði verið að velja flugleiðir þar sem engin aska var í loftinu.
„Ég held að ríkisstjórnin viðurkenni að þetta voru allt of hörð viðbrögð. Flugbannið yfir Evrópu var röng ákvörðun," segir hann.